Hillary Clinton sendir forstjóra Alcoa Fjarðaáls heillaóskir

Í kjölfar þess að forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Janne Sigurðsson, hlaut nýlega bandarísku Stevie-gullverðlaunin, sem forstjóri ársins í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku hefur Hillary Rodham Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sent Janne heillaóskir. Janne veitti viðtöku kveðju untanríkisráðherrans í móttöku sendiherra Bandaríkjanna, Luis E. Arreaga, í dag, fimmtudaginn 24. janúar. 

Janne hlaut verðlaunin fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð á þeim sex árum sem liðin eru frá því að hún gekk til liðs við Alcoa. Á þessum tíma hefur hún stjórnað mikilvægum umbótaverkefnum, lagt sig fram um að skapa öruggt vinnuumhverfi í álverinu og náð miklum árangri í að auka starfsánægju í fyrirtækinu. Hún hefur einnig tekið virkan þátt í að byggja upp samfélagið á Austurlandi, en hún býr á Eskifirði. 

Luis E. Arreaga, sendiherra segir það mjög ánægjulegt að með Stevie-gullverðlaununum hefði Janne Sigurðsson verið valin forstjóri ársins 2012 í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Hann segir að af þeirri ástæðu vildi Hillary Rodham Clinton óska Janne innilega til hamingju með viðurkenninguna.