Síðdegisfundur - Tveir heimar Ólafs Jóhanns

Skráðu þig á síðdegisfund AMÍS

Amerísk-íslenska viðskiptaráðið býður þér á samtal Kristjáns Kristjánssonar, fjölmiðlamanns, við Ólaf Jóhann Ólafsson, athafnamann og rithöfund, um viðburðaríkan feril hans og umbyltingar í fjölmiðlaheimi vestanhafs.

Ólafur Jóhann hefur verið afkastamikill rithöfundur frá því hann sendi frá sér sína fyrstu bók árið 1986. Hann hefur hlotið margháttaða viðurkenningu fyrir ritstörf sín.

Ólafur Jóhann hefur frá því árið 1999 verið aðstoðarforstjóri Time Warner, stærsta fjölmiðlunar- og afþreyingarfyrirtækis í heimi, þar sem hann stýrir meðal annars stefnumótun fyrirtækisins á heimsvísu.

Samtalið fer fram í höfuðstöðvum Arion banka þriðjudaginn 20. desember kl. 17. 

Boðið verður upp á léttar veitingar að samtali loknu.

Athugið að ókeypis er inn á fundinn en skráning er nauðsynleg.

Dagskrá á pdf >>

Skráning fer fram hér >>

Nánar um Ólaf Jóhann
Ólafur Jóhann hleypti heimdraganum tvítugur og hélt til náms við hinn virta Brandeis háskóla í Bandaríkjunum. Hann lauk prófi með eðlisfræði sem aðalgrein og síðan hefur ferill hans í bandarísku viðskiptalífi verið ævintýri líkastur. Hann starfaði lengi hjá Sony þar sem hann leiddi meðal annars þróun og markaðssetningu fyrstu Playstation tölvunnar. Hann hefur frá því árið 1999 verið framkvæmdastjóri Time Warner, stærsta fjölmiðlunar- og afþreyingarfyrirtækis í heimi þar sem hann stýrir meðal annars stefnumótun fyrirtækisins á heimsvísu. Time Warner velti 3.200 milljörðum íslenskra króna á seinasta ári, EBITDA var 915 milljarðar og hagnaður félagsins eftir skatta var 460 milljarðar króna. Í október var tilkynnt um kaup fjarskiptarisans AT&T á Time Warner fyrir 85 milljarða bandaríkjadala eða um tíu þúsund milljarða íslenskra króna. Til samanburðar má nefna að heildarútgjöld ríkissjóðs Íslands á árinu 2016 eru áætluð 652 milljarðar króna.

Ólafur Jóhann hefur verið afkastamikill rithöfundur frá því hann sendi frá sér sína fyrstu bók árið 1986, smásagnasafnið Níu lykla. Bækur hans hafa verið gefnar út á um tuttugu tungumálum. Hann hefur hlotið margháttaða viðurkenningu fyrir ritstörf sín, þar á meðal Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006 fyrir smásagnasafnið Aldingarðinn og O. Henry verðlaunin í Bandaríkjunum árið 2008. Hann er stjórnarformaður Atlantic Theater Company í New York, hefur setið í stjórn Brandeis University og Trevor Day School auk samtaka á borð við American Scandinavian Foundation. Ólafur Jóhann hefur einnig látið til sín taka á sviði góðgerðarmála vestra. 

Skráning fer fram hér >>