Amerískir dagar undirstrika góð samskipti Íslands og Bandaríkjanna

Í tilefni þakkargjörðarhátíðar Bandaríkjamanna fimmtudaginn 22. nóvember nk. ákvað Amerísk-íslenska viðskiptaráðið ráðið – AMIS að standa að Amerískum dögum með Hagkaup sem innleiddi fyrir mörgum árum þessa daga í verslunum sínum. Tilgangur AMIS er að nýta Ameríska daga til að undirstrika mikilvægi verslunar, viðskipta, menningar- og menntunarmála milli Íslands og Bandaríkjanna (BNA).

Mörg innlend fyrirtæki, stór sem smá, munu nýta sér Amerísku dagana til að kynna bandarískar matvörur og margskonar neytendavarning, auk þess sem veitingastaðir bjóða upp á vinsæla ameríska rétti. Hagkaup flutti sérstaklega inn á fjórða hundrað  vörutegundir af þessu tilefni sem eykur mjög fjölbreytt vöruúrval verslananna þessa daga.

 

Löng og farsæl viðskipti

Amerískir dagar hófust formlega í Smáralind í dag, fimmtudaginn 15. nóvember, þegar Birkir Holm Guðnason, formaður AMIS, Eric F. Green, fyrsti sendiráðsritari í sendiráði BNA og Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, klipptu á borða.

Birkir Hólm Guðnason segir „Bandaríkin hafa leikið lykilhlutverk í viðskiptasögu Íslands um áratugaskeið“ og nú þurfi að skjóta enn styrkari stoðum undir áratuga löng og farsæl samskipti vinarþjóðanna. Amerísku dagarnir tengjast þakkargjörðarhátíð Bandaríkjamanna, en hún er mesta fjölskylduhátíð ársins vestra og er hátíðarrétturinn kalkúnn „með öllu tilheyrandi.“

 

Sérblað í 100.000 eintökum  

Í dag kom út 24 bls. sérblað AMIS sem heitir Amerískir dagar sem fjallar á ítarlegan hátt um gagnkvæm og jákvæð samskipti landanna. Blaðinu er dreift í 100 þúsund eintökum inn á hvert heimil á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og til áskrifenda Morgunblaðsins um allt land.  Fyrr á árinu var Amerísk-íslenska verslunarráðið - AMIS endurvakið eftir nokkurra ára hlé og þegar eru komnir á annað hundrað félagsmenn jafnt fyrirtæki, samtök og einstaklingar. Amerísk-íslenska viðskiptaráðið  hefur þegar staðið fyrir fjölda atburða og á næstu misserum verður mjög margt í deiglunni hjá ráðinu.